143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við Píratar munum vissulega koma að því samráði sem býðst, það er því miður ekki víst að það bjóðist mjög mikið, en vissulega og algjörlega. Okkar stefna tilgreinir varúðarregluna sérstaklega og þykir hún í raun vera almenn skynsemi. Einnig eru Píratar mjög framsýnn flokkur, þ.e. við leggjum áherslu á að taka tillit til nútímans eins og hann er núna, það þýðir ekkert að byggja endalaust á gömlum grunni. Það er skýr munur á umhverfi nútímans, árið 2013, frá því sem var 1990, munurinn er svo yfirþyrmandi og skýr að það blasir við að endurskoða þarf náttúruverndarlög með hliðsjón af því. Varúðarreglan er í stefnu okkar og vernd náttúrunnar almennt. Við viljum ólm komast í það verk að endurskoða lögin og viljum hjálpa til við að bæta þau ef okkur gefst færi á því.