143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:52]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara fá að taka undir með hv. þm. Helga Gunnarssyni um þetta frumvarp um brottfall þessara fínu, flottu laga sem áttu að taka gildi í apríl á næsta ári. Hann minntist til dæmis á kostnaðaraukninguna og ég tek undir það. Ég er að stíga inn á þing í dag og er búin að vera að lesa þetta frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruverndina og sé að meðal rakanna er að kostnaðaraukningin sem af þessu hljótist sé svo íþyngjandi fyrir sveitarfélögin. Hún er 20–50 millj. kr. á ári því að kannski þyrfti að ráða sérfróðan starfsmann sem ætti meðal annars að vinna að verndun og friðlýsingu vatna- og jarðhitasvæða.

Ég tel mig ágætlega kunnuga rekstri og umhverfi sveitarstjórnanna. Það að gera sveitarfélögin skyld til að ráða starfsmann sem er sérfróður á þessu sviði er gott. Það er jákvætt. 20–50 milljónir sem deilist niður á 75 sveitarfélög er ekki slæmt, það er ekki mikill kostnaður. Það að nota það sem rök fyrir brottnámi þessara laga er algjörlega út í hött. Ég verð bara að fá að koma því hér að. Mér finnst kominn tími til að sveitarfélögum hér á landi verði gert skylt að sinna þessum málaflokki af virðingu, fagmennsku og natni og að fylgja lögum, einkum þegar kemur að verndun vatnasvæða. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvað í þeim orðum felst að vernda hjá okkur vatnasvæðin.

Ég get alveg fullyrt að kostnaður sveitarfélaganna vegna þessara laga er brotabrot af kostnaði þeirra vegna annarra laga (Forseti hringir.) og ákvarðana Alþingis.