143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara undir með hv. þingmanni. Þessar tölur stungu líka svolítið í augu þegar ég renndi yfir þetta á sínum tíma — 20–50 milljónir, mér finnst þetta ekki neitt óskapleg upphæð. Þetta er hús, ekki einu sinni stórt hús, í Gerðunum, þetta er ekki mikill peningur fyrir sveitarfélög landsins, hvað þá ríkið. Ef sveitarfélögin gætu ekki borið þennan kostnað mætti alveg leggja til að ríkið borgaði þetta bara sjálft eins og ég segi. Þetta er ekki há upphæð þegar kemur að ríkisrekstrinum.

Það er reyndar erfitt að finna lægri upphæðir, verð ég að segja. Ef maður lítur yfir fjárlög eru þau talin í milljónum, það er ekki talin 1,1 milljón eða 1,9 milljónir, það eru bara 1 milljón eða 2 milljónir vegna þess að það tekur því ekki að brjóta tölurnar meira niður. Að tala um 20–50 milljónir sem einhver rök gegn þessum gömlu lögum er hlægilegt með fullri virðingu fyrir þingheimi öllum.