143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:32]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það felst mikil virðing í því að standa í þessum ræðustól.

Mig langar að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort hún telji að kortagrunnurinn, ég er ekki mótfallinn honum, tek það skýrt fram, sem slíkur komi í veg fyrir utanvegaakstur. Ég held að svo sé ekki.

Þá velti ég fyrir mér, því að ef við viljum raunverulega koma í veg fyrir utanvegaakstur þurfum við að auka eftirlit gríðarlega mikið, hver eigi að kosta það eftirlit. Grundvöllurinn er að ná fram hugarfarsbreytingu. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum ekki utanvegaakstur.

Ég vil líka nefna, sitjandi hér í salnum og eftir að hafa hlustað á nokkrar ræður, verandi sveitarstjórnarmaður sjálfur, að nokkrir alþingismenn segja að 20–50 milljónir séu engir peningar fyrir sveitarfélögin. Mér finnst óábyrgt af alþingismönnum að standa í þessum ræðustól og segja það. Það er búið að nefna það fjórum sinnum hér í dag. Ég verð að segja það.