143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það leitt ef ég hef orðað það þannig að kortagrunnurinn sem slíkur kæmi í veg fyrir utanvegaakstur, hann gerir það auðvitað ekki. Hins vegar skil ég kortagrunninn þannig að ef þeir sem aka um hálendið hefðu slíkan kortagrunn væri alveg ljóst hvar þeir mættu vera og hvar þeir mættu ekki vera. Þá geri ég líka ráð fyrir að flestir sem væru þar væri — hvaða orð á ég að nota? — sómasamlegt fólk sem vissi að það mætti keyra þarna og ætti þess vegna ekki að fara út fyrir þessa slóða. Ég tel ósóma af því að fara út fyrir slóðana, það er náttúrlega svo.

Hv. þingmaður segir að það þyrfti mjög mikið eftirlit. Ef það væri ljósara en er í dag hvar menn mega vera og það væri alveg skýrt — jú, það þyrfti eftirlit en það eru ýmsir sem keyra um hálendið sem gætu séð aðra sem keyra þar um á slóða sem þeir mættu ekki vera á. Fólk hefði þannig eftirlit hvert með öðru. Ég held að það væri hið besta mál. Ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af því að menn séu að klaga hver annan á almennum stöðum, til dæmis ef þeir eru á gangi í Austurstrætinu, en ég treysti mér alveg til að klaga einhvern sem keyrir utan vegar einhvers staðar uppi á hálendi.