143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að menn fari aftur yfir allt umsagnarferlið sem farið var í gegnum í nefndinni. Hér í þinginu starfar ný umhverfisnefnd sem að stærstum hluta hefur ekki komið að þessu máli áður. Þeir sem taka ákvarðanir um að taka svo mikinn og veigamikinn lagabálk úr sambandi verða auðvitað að hafa yfirsýn yfir það sem þeir eru að gera, þannig að ég tel það óhjákvæmilegt.

Ég held að mjög sjaldan í íslenskri stjórnmálasögu hafi farið fram jafn vönduð vinna í aðdraganda lagasetningar og í þessu máli, þar sem menn fara í margra ára ferli, halda fundi um allt land, taka við umsögnum í hina svokölluðu hvítbók, leggja sérstakt umhverfisþing árið 2011 undir málefnið, búa síðan til löggjöf sem fer í umsagnarferli í þinginu og að mjög stórum hluta tekið mið af þeim fjölda umsagna sem bárust.

Ég hvet hv. þingmenn til að lesa sig í gegnum nefndarálit hv. umhverfisnefndar frá síðasta kjörtímabili í þessu máli og sjá þar að hvaða leyti gerðar voru breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við þessar umsagnir. Ég held að allir hljóti að sannfærast sem lesa sig í gegnum þann texta að það sem út af stendur er handavinna sem gæti farið fram í umhverfis- og samgöngunefnd núna á þeim fjórum mánuðum sem til stefnu eru þangað til lögin taka gildi 1. apríl.