143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:58]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til þess að fá að taka undir orð hv. þm. Róberts Marshalls. Ég tók eftir því að hann talaði sérstaklega um svokallaðar náttúruverndarnefndir, eins og þær eru kallaðar í lögunum. Ég vil fá að árétta það að í öllum sveitarfélögunum 75 eru nú þegar starfandi einhvers konar umhverfisnefndir eða náttúruverndarnefndir þannig að ef það er sá kostnaður sem tiltekið er að muni bætast við sveitarfélögin, þessar heilu 50 milljónir, ef við dreifum þeim á 75 sveitarfélög er það undir milljón á hvert sveitarfélag. Það er því náttúrlega ekki hægt að nota sem rökstuðning fyrir því að afnema þessi lög, nefndirnar eru þegar starfandi.

Ég get stolt sagt frá því að ég er formaður slíkrar nefndar í þriðja stærsta sveitarfélagi landsins. Ég hef farið í gegnum þessi lög og ég tel þau vera mjög góð og brýn og leiðbeinandi fyrir þær nefndir sem kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstiginu starfa með.

Í frumvarpinu um brottfall laga um náttúruvernd er einnig talað um vatnsverndarsvæðin, að það séu einhver ákvæði þar sem flækjast fyrir. Ég vil til dæmis benda á að árið 2014 mun hafa fjölgað um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu. Í dag erum við þegar komin í bölvað basl með að vernda hjá okkur vatnsverndarsvæðin, þau hopa fyrir skipulagsvöldunum og eru í hættu. Ég vil ekki þurfa að rifja upp meira en olíuslysið við Bláfjallaafleggjara á sínum tíma og hvað við vorum guðs lifandi fegin að það var tankur sem lenti á malbikuðum slóða.

Hér er verið að tala um friðlýsingu heilla vatnskerfa, um heimild ráðherra til að friðlýsa heil vatnskerfi og þar á meðal lindarsvæði. Ég get ekki ítrekað nógu oft (Forseti hringir.) hversu mikilvægt það er að við tökum þau mál föstum tökum, þ.e. vatnsverndarsvæðin. (Forseti hringir.) Við erum að tala um vatn, grundvöll lífs. (Forseti hringir.) Ég biðla til umhverfisráðherra að taka þessi lög aftur til …