143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kannski engin bein fyrirspurn í máli hv. þingmanns sem hún beindi til mín en ég tek undir það sem hún segir varðandi þessar nefndir á vegum sveitarfélaganna. Í greinargerð með frumvarpi ráðherra um brottfall laga um náttúruvernd er talað um að það séu óskýr valdmörk og eitthvað óskýrt með hlutverk sveitarfélaga gagnvart stofnunum sem fjalla um umhverfismál. Samt sem áður er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð skorið betur úr um þessi valdmörk og hlutverk þannig að það eitt og sér finnst mér ekki vera rök fyrir því að fara í þetta mál. Ég tók nokkur önnur dæmi í röksemdafærslu hæstv. ráðherra sem mér finnst ekki standast efnislega skoðun.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áður að við þurfum auðvitað að fá þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra hefur varðandi breytingar áður en lengra er haldið með málið. Við þurfum að fá að sjá í hvaða átt er verið að fara með lög um náttúruvernd áður en við fellum úr gildi þessa lagasetningu vegna þess að búið er að fara í gegnum mjög viðamikð ferli. Að vísu hefur ráðherra sagst ætla að byggja á fyrri vinnu, en ég held að það væri miklu eðlilegra og miklu meira til sátta fallið og miklu meira, held ég, í anda nýrra vinnubragða hér á Alþingi að fá einfaldlega lista yfir þær breytingar sem ráðherra og ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn vill gera á lögunum svo að hægt sé að fara yfir þær efnislega. Ég held að slík skoðun mundi leiða í ljós að við erum sammála um fleira en við erum ósammála.