143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á þeirri staðreynd að stjórnarliðar taka ekki þátt í umræðunni hér. Stjórnarliðar hafa komið í nokkur andsvör en engar ræður haldið. Hvar er formaður nefndarinnar akkúrat á þessu augnabliki og hvar eru hv. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins? Hvar er hv. þm. Birgir Ármannsson sem var í umhverfisnefnd þegar málið var klárað? Hvar er hv. þm. Brynjar Níelsson sem er núna í umhverfis- og samgöngunefnd? Ætlar hann ekki að tala í þessu máli? Það hefur ekki vafist fyrir honum hingað til að ræða málin. Hver talar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli? Er Framsókn að gera þetta fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Hvaðan kemur frumkvæðið að þessu máli? Eru þetta pólitísk skítverk, með leyfi forseta? Stendur til að öll lagasetning hér eftir skuli þóknanleg tilteknum hagsmunaöflum í samfélaginu og þetta mál sé þar með í takti við það að dregið skuli úr eftirliti og stóriðjustefnan fari á fulla ferð? (Forseti hringir.)

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessari staðreynd í þessari mikilvægu umræðu því að það er ekki eins og hér sé um smámál að ræða.