143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að það hefur gefist tækifæri til að halda þessari umræðu áfram aðeins fram á kvöld og er ástæða til að þakka fyrir þann tíma sem gefinn er til umræðunnar um leið og maður hlýtur auðvitað að taka undir þær athugasemdir sem hér koma fram, ekki síst um fjarveru formanns nefndarinnar sem þó eins og fram kom áðan hefur tekið þátt í andsvörum við umræðuna. Maður skyldi ætla að það væri hér sem sjónarmið stjórnmálaflokkanna kæmu fram og þingmanna þeirra sem ekki eiga sæti í nefndinni og væri því mikilvægt í jafn miklu deilumáli og þetta verður fyrirsjáanlega á þinginu í vetur að nefndarformaðurinn gæfi sér tíma til að vera við umræðuna. Kannski er hann mættur til leiks og situr hér í hliðarsal án þess að ég hafi orðið var við það en það kemur þá fram undir fundarstjórn forseta ef svo er.