143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Um helmingur lagasetningar sem varðar persónuvernd hefur komið til á síðustu sex árum. Á sama tíma hafa fjárútlát til stofnunarinnar Persónuverndar verið mjög langt frá því að halda í við lögin sem þýðir að stofnunin er í reynd ófær um að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Þetta er hvimleitt því að það er sífellt meiri hætta á því að misbrestur verði í framfylgni persónuverndarlaga eftir því sem tækninni fleygir fram — og henni fleygir fram. Því þarf að vera til staðar stofnun sem hægt er að leita til og hún þarf að hafa mannskap og tíma til bæði leiðsagnar og eftirlits. Persónuvernd á að sinna því hlutverki en hefur í dag einfaldlega ekki nægt fjármagn til þess.

Nú eru brot á persónuverndarlögum sjálfsagt yfirleitt framin eiginlega í mesta sakleysi. Við getum öll flett upp kennitölum hvert annars á netinu og ég spyr hv. þingmenn hvort þeir séu meðvitaðir um hvað þeir megi nákvæmlega gera við þær upplýsingar. Það er alls óvíst enda er ekki hægt að ætlast til þess af öllum sem nota tölvur að kunna deili á öllum lagabókstaf. Til þess höfum við Persónuvernd. Því er mikilvægt að sú stofnun hafi svigrúm til sinna starfa.

Ofan á þetta allt eru ýmis fyrirtæki á landinu, sérstaklega fjármálafyrirtæki, sem virðast deila upplýsingum, áframsenda og selja ýmsar mjög viðkvæmar upplýsingar um einstaklinga. Nú eru fimm ár liðin frá hruni og á þeim tíma hefur mikið af fullkomlega heiðvirðu og ábyrgu fólki þurft að glíma við alls kyns fjármálavandræði. Fólk er sett á hinar og þessar skrár fyrir það eitt að vera fórnarlömb aðstæðna.

Með upplýsingabyltingunni koma mörg tækifæri en einnig ógnir. Allt sem varðar upplýsingar og vinnslu þeirra verður sífellt auðveldara, þar á meðal brot á friðhelgi einkalífsins eins og frægt er orðið. Í því sambandi er mikilvægt að við gleymum ekki þeim verkfærum og þeim stofnunum sem við höfum sett á laggirnar til að vernda réttindi okkar til frambúðar.