143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst að þingheimur verði að íhuga alla tekjumöguleika þegar við þurfum að velta fyrir okkur hverri krónu og verið er að skera niður víða og henda frá sér tekjumöguleikum, eins og stjórnvöld hafa verið að gera undanfarið. Við verðum að horfa til tekjumöguleika sem minnst var á hér áðan, þ.e. auðlindarinnar makrílsins. Makríllinn er auðlind sem við höfum fengið hingað að Íslandsströndum og vonandi verður það þannig áfram. Ég tel rétt að við skoðum möguleika á að leigja hann út eða bjóða hann út. Manni var bara brugðið þegar hæstv. ráðherra gaf út að nú stæði til að kvótasetja makríl og færa handhöfum kvótans sem fyrir eru þessa auðlind, framseljanlega, að virði hátt í 100 milljarða. Það hlýtur að vera þingmönnum umhugsunarefni þegar þeir horfa upp á niðurskurð í heilbrigðiskerfinu vítt og breitt um landið að þarna sé auðlind sem við sem þjóð eigum að hafa arð af og eigum að gera tilkall til, að þeir sem nýti þá auðlind borgi gjald fyrir það til þjóðarinnar en fái þetta ekki sem innstæðu á bankabók, framseljanlega, og geti nýtt sér það sem fjármuni þegar þeim þóknast.

Ég trúi ekki öðru en að þingmenn hérna inni þrýsti á ráðherra sinn að skoða þetta upp á nýtt og skoða með hvaða hætti við sem þjóð getum haft arð af þessari auðlind. Það gæti breytt mörgu fyrir uppbyggingu þjóðfélagsins næstu árin.