143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni fjárhagsaðstoð við atvinnulaust fólk og virkni í samfélaginu. Ég hef bæði í riti og ræðum fjallað um virkni í samfélaginu og það er gríðarlega mikilvægt að þeim sem festast á bótum verði sköpuð sýn á vinnu og þeim verði skapaður vettvangur til að sinna starfi. Það fylgir því höfnun að vera heima hjá sér og hafa engin störf til að hverfa að á hverjum degi eins og við hin sem getum aflað okkur fjár til að sjá fjölskyldum okkar og börnum farborða. Það er mjög mikilvægt að við vinnum að þessum málum í þinginu.

Ég hef kynnt mér sjálfboðaliðastarf í Bandaríkjunum. Þar sinnir fólk störfum í samfélaginu — án þess að taka þau frá öðrum — í skólum, í opinberum stofnunum og víðar. Ég held að við þurfum að skoða hvort virkni í samfélaginu geti ekki aukist með því að þeir sem eru atvinnulausir og fá félagslega aðstoð komi og mæti til vinnu til að hafa eitthvað fyrir stafni yfir daginn. Það hvílir myrkur hugans yfir þessu fólki þegar dagarnir eru endalausir og næturnar nýttar til að sinna því sem er dægradvöl þess. Það er mikilvægt að við tökum okkur saman og aukum virkni þessa fólks með því að skapa því vinnu og tækifæri til að afla sér lífsviðurværis.