143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða um þá skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði um starfsemi Matvælastofnunar en ég verð að byrja á því að svara aðeins þeirri makrílumræðu sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið upp með í þessum ræðutíma. Það er holur hljómur í hugmyndum og gagnrýni þeirra hv. stjórnarandstöðuþingmanna.

Það eru lög í landinu. Þau gera ráð fyrir að tegundir skuli kvótasettar og deilt út miðað við aflareynslu ef um staðbundinn stofn er að ræða sem hefur verið veiddur í þrjú ár við land. Ef um er að ræða flökkustofn eða deilistofn þá skulu tekin þrjú bestu árin á síðustu sex árum. Nú hefur makríll verið veiddur við Ísland síðan árið 2007 þannig að skilyrði þessara laga eru augljóslega í gildi og þau lög sem við eigum að starfa eftir. Ekki þarf að rifja upp þá hamfarasögu sem síðasta ríkisstjórn á í fiskveiðistjórnarmálum. Nú koma þessir hv. þingmenn hingað og gagnrýna hæstv. sjávarútvegsráðherra og núverandi meiri hluta fyrir að ætla að kvótasetja þá tegund endanlega með framseljanlegum aflaheimildum eins og okkar fiskveiðistjórnarkerfi býður upp á.

Hvar voru þessir hv. þingmenn á síðasta ári? Hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem kemur hingað og eys úr visku sinni yfir okkur að nú þurfi að gera þetta allt öðruvísi. Af hverju breytti hann þessu ekki á síðasta kjörtímabili? Það er holur hljómur í svona málflutningi.

Nú er verið að reyna að þyrla upp ryki enn eina ferðina um fiskveiðistjórnarkerfið, þann mikilvæga málaflokk í íslensku atvinnulífi sem þingið þarf að sameinast um í vetur að ná einhverri sátt um. Ég höfða til þeirra hv. þingmanna, við skulum nú reyna (Forseti hringir.) að setjast niður og koma einhverju skikki á þessi vinnubrögð en ekki nota þetta í pólitískum tilgangi. Við tökum ekki bæði veiðigjöld og setjum síðan (Forseti hringir.) aflaheimildir á uppboðsmarkað. Það var ákveðið af síðustu ríkisstjórn að fara veiðigjaldsleiðina.