143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem þeir tveir sem síðast töluðu sögðu er best að tala um að við sem skipum minni hluta hverju sinni erum vissulega misjöfn, en við sjáum ekki mikið af því sem núverandi meiri hluti hefur kallað samvinnu og samráð. Það er ánægjulegt að hv. þm. Jón Gunnarsson er tilbúinn í samvinnu og samráð. Því var ekki alltaf fyrir að fara á síðasta kjörtímabili.

Við höfum í sjálfu sér ekki fengið að koma að neinu af því sem núverandi ríkisstjórn ákvað að einhenda sér í á sumarþingi fremur en því sem birtist núna sem breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem fram undan er.

Ég hef heyrt það af reyndari þingmönnum að fáheyrt sé að fundur falli niður í fjárlaganefnd á þessum árstíma þegar við eigum að vera á bólakafi í að ræða málin og gera breytingar á frumvarpinu sem hefur verið boðað hér af miklum móð að verði stórt og mikið og hagræðingartillagnanna sjái stað. Sama má segja um fjáraukann, hann er ekki kominn fram. Það eru fjórir nefndadagar fram undan og einn þingdagur, þ.e. á morgun. Væntanlega er þessum nefndadögum ætlað að fara í þessa vinnu eða ég skil það þannig því að fjárlagafrumvarpið á að taka til 2. umr. 3. desember. Mér finnst afar sérkennilegt að breytingartillögur séu ekki komnar til umræðu formlega í fjárlaganefnd. Fjáraukalagafrumvarpið er ekki komið til umræðu í fjárlaganefnd. Ef það verður ekki lagt fram á morgun þá verður það væntanlega ekki tekið fyrir og ekki breytingartillögurnar heldur, eða hvað? Þær verða kannski frekar teknar fyrir en alla vega ekki fjáraukalagafrumvarpið á þeim nefndadögum sem fram undan eru.

Fyrir utan það þurfum við síðan að fá gestina sem við höfum óskað eftir og ekki hefur verið orðið við. Það hefði verið hægt að gera á mánudaginn var þegar fundur féll niður.