143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Nú eru ekki nema nokkrir dagar í að ríkisstjórnin muni kynna framkvæmd boðaðra skuldaleiðréttinga. Heimilin eru orðin óþolinmóð eftir aðgerðum og undrar mig það ekki því að biðin hefur verið löng, mun lengri en þetta kjörtímabil hefur staðið. En um leið og óþolinmæðin brýst fram, sem ég viðurkenni alveg að hefur gerst hjá mér, er ég um leið ánægð. Ég er ánægð með hversu mikil vinna hefur farið í undirbúningsvinnuna, vinnuna fyrir komandi aðgerðir sem tryggja að komið verði fram með tillögur sem duga og verða í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.

Herra forseti. Það er samt ekki laust við að ákveðnir þættir hafi haft áhrif á ánægju mína, en það eru til dæmis hér í salnum nokkrir þingmenn sem leika sér að því að afvegaleiða umræðuna um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, slá fram fullyrðingum um skuldaleiðréttingarnar sem enginn fótur er fyrir. Þessir aðilar hafa í sjálfu sér enga hugmynd um hvernig eigi að framkvæma aðgerðirnar. Fyrirhugaðar aðgerðir eru eingöngu talaðar niður og reynt að auka ótrúverðugleika þess sem koma skal.

Herra forseti. Þetta finnst mér ekki fallega gert því að í hvert sinn sem umræðan fer á þetta plan grípur um sig hræðsla hjá ákveðnum hópi einstaklinga úti í þjóðfélaginu sem búa á skuldsettum heimilum og hjá þeirri sem hér stendur stoppar varla síminn, póstarnir hrúgast inn og fólk spyr: Hvað átti hinn og þessi við með orðum sínum?

Hv. þingmenn. Við verðum að passa okkur á því hvað við segjum og þrátt fyrir að einhver hafi gaman af orðaleikjum og að leika sér með fullyrðingar hafa ekki allir jafn gaman af umræðunni. Kvíði og ótti tekur völdin í samfélögunum innan veggja skuldsettra heimila. Auðvitað á gagnrýni alltaf rétt á sér en þá þurfum við að muna að við verðum að fara með staðreyndir. Munum það.