143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar efasemdir um þessar hugmyndir. Þótt það sé sjálfsagt að sameina það sem sameina ber tek ég undir áhyggjur, sérstaklega af Persónuvernd, og velti fyrir mér hvort þetta eigi endilega allt heima undir sama þaki. Réttindin eru mjög misjöfn, sérstaklega þegar kemur að borgaralegum réttindum, þ.e. hvernig þau eru vernduð fyrir mismunandi hópa. Það getur verið misjafnt og þá er mikilvægt að við höfum alla hópa í huga. Sem dæmi ringlar það mig pínulítið, með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigendum, að við skulum ekki hafa hæstv. innanríkisráðherra heldur hæstv. velferðarráðherra þegar við erum að tala um borgararéttindi sem maður hefði haldið að heyrði undir hæstv. innanríkisráðherra. Þetta er nokkuð sem fatlaðir hafa nefnt við mig, að það er litið á öll réttindi þeirra sem velferðarmál. Þau eru það vissulega að miklu leyti en málefni þeirra varða líka borgararéttindi.

Hver pælir til dæmis í friðhelgi einkalífs fatlaðra? Hvaða rétt hafa fatlaðir til friðhelgi einkalífs? Það hafa ekki margir hugsað út í þetta, hvað þá hvernig útfærslan eigi að vera. Þess vegna finnst mér ofboðslega mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað því að borgararéttindi eru fyrir alla. Alla, alla, alla. Því er mikilvægt að við höfum það í huga, sérstaklega þegar við ætlum að fara að spara peninga. Við vitum alveg hver hættan er. Hættan er sú að einstaka liðir ýmist gleymist, týnist eða séu misflokkaðir þannig að þeir séu ekki á þeim stað sem þeir eiga heima á.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Mér finnst hún mjög mikilvæg og í raun er kominn tími til að ræða borgararéttindi heildstætt.