143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er ánægjulegt að nú séu tillögur hagræðingarhópsins farnar að rata inn í sérstakar umræður í þingsölum.

Í ljósi þess hvað er hér til umræðu skulum við ekki gleyma því að mannréttindi eru varin í stjórnarskrá. Mannréttindum fylgja skyldur stjórnvalda að uppfylla þau fyrir hönd borgaranna. Þegar hagræðingarhópurinn fór að skoða þessa hugsanlegu framtíðarstofnun sem á að hýsa borgaraleg réttindi hafði hann það í huga sem hefur gerst hingað til, að ýmis réttindi hafa fallið niður, fólki er vísað á milli Pontíusar og Pílatusar og einstaklingar hafa verið lengi að finna út úr því hvar viðkomandi á raunverulega heima, sé viðkomandi með einhver kvörtunarefni eða telji að stjórnvöld séu að brjóta á einhvern hátt á sér.

Þegar við skoðuðum innihald þessarar hugsanlegu framtíðarstofnunar um borgaraleg réttindi höfðum við það fyrst og fremst að leiðarljósi að til yrði stofnun sem hefði að minnsta kosti 20 starfsmenn. Eins og fram hefur komið í umræðunum er mikið óhagræði af örstofnunum eins og við þekkjum úr íslensku samfélagi þar sem jafnvel eru bara þrír, fjórir, fimm starfsmenn en samt hefur stofnunin yfirstjórn þannig að þá getum við séð kostnaðinn fyrir samfélagið sem hlýst af því að hafa þessar örstofnanir starfandi.

Hér hefur verið gagnrýnt að við settum í tillögum okkar umboðsmann barna og persónuvernd undir þessa stofnun. Ég hefði viljað sjá þessa tillögu jafnvel stærri og impraði á því að þarna ætti umboðsmaður skuldara að vera til framtíðar. Þó að umfang hans minnki mikið til framtíðar held ég að við þurfum að hafa slíkan umboðsmann til að leysa skuldamál til framtíðar. Ég fagna þessari umræðu (Forseti hringir.) og sérstaklega því hvað þessi hugmynd fær góðar viðtökur.