143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar við erum að velta fyrir okkur að sameina stofnanir og hvað þær eiga að heita þurfum við líka að vita hvað felst í hugtakinu mannréttindi. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir velti því einmitt fyrir sér hvað fælist í þessu hugtaki. Menn tala hér um fyrstu kynslóðar, annarrar kynslóðar og jafnvel þriðju kynslóðar mannréttindi. Hugtakið mannréttindi hefur alltaf verið skýrt, það er réttur hvers og eins gagnvart stjórnvöldum; tjáningarfrelsið, friðhelgin, eignarrétturinn. Af hverju mega hin réttindin ekki bara heita efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi? Af hverju þurfa þau að heita mannréttindi líka? Það ruglar þetta allt saman.

Sumar þær stofnanir sem hér er um að ræða eiga auðvitað saman, þær sem snúa að hinum hefðbundnu mannréttindum. Ég er til dæmis ekki viss um að málefni fatlaðra eigi öll heima þar undir, þau ættu að vera sér. Ekki svo að skilja að málefni fatlaðra geti ekki komið inn á nýju stofnunina þegar kemur að sérstökum mannréttindum þeirra eins og allra annarra.

Það er auðvitað gott að ræða þetta og fara aðeins yfir hvað gæti átt saman, búa til öfluga stofnun um þessi mikilvægu réttindi og þess vegna aðra stofnun um önnur réttindi, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg. Við verðum þá að vita hvað felst í þessu hugtaki. Við verðum að byrja á því að ræða þetta og finna hvað getur átt saman og hvað ekki. Ég tel að umboðsmaður barna eigi ekki heima þarna, ég held að það embætti eigi bara yfir höfuð ekki að vera til. Umboðsmaður Alþingis ætti að sinna því sem snýr að eftirlitsskyldu þingsins varðandi réttindi barna (Forseti hringir.) og aðrar stofnanir að sjá um aðra hagsmuni barna.