143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið gefin um síldardauðann í Kolgrafafirði og viðbrögð við honum. Þessi síldardauði hefur minnt okkur illþyrmilega á hversu óútreiknanleg náttúran er og að hún tekur gjarnan sinn toll. Það getur reynst erfitt að skilja ástæður og bregðast við þegar slíkir hlutir gerast.

Það er líka ástæða til að skoða hver áhrif mannanna verk geta verið á náttúruna, hvort sem er til að spilla henni, hlúa að henni eða nýta hana. Það er kannski það sem manni dettur fyrst í hug þegar verið er að ræða um hvað gerðist, hvað hefur valdið þessu í Kolgrafafirðinum og að hve miklu leyti sjálf Vegagerðin á þátt í að þetta varð með þessum hætti.

Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að umhverfismat hafi verið framkvæmt á sínum tíma, en nú þegar eru menn farnir að velta fyrir sér áhrifum strauma fjarðarins, vatnaskipta og annars þarna og hvort opnun fjarðarins eða lokun hans gæti breytt þessu ástandi.

Það er gríðarlega stórt mál þegar samtals drepast um 55 þús. tonn af síld í Kolgrafafirði, að því er menn telja, annars vegar í desember fyrir ári og síðan í febrúar. Eins og hæstv. ráðherra benti á er þarna kannski um að ræða verðmæti upp á 2–3 milljarða kr. Samanborið við árskvótann í síldveiðum, um 65 þús. tonn, sjá menn hve gríðarlegt magn þetta er. Ef þetta gerist aftur hljótum við að reyna að bregðast þannig við að menn geti nýtt þessa síld í staðinn fyrir að láta hana deyja inni á firðinum.

Þegar þetta gerðist á sínum tíma, í desember og síðan aftur í febrúar, voru menn að átta sig á því í hvaða stöðu þeir væru komnir. Ég held að enginn hafi gert sér grein fyrir því í byrjun hversu mikið magnið var. Þá var gripið til margvíslegra aðgerða og í rauninni hefur býsna margt tekist vel í hreinsunaraðgerðum. Það tókst að grafa mikið af síldinni í firðinum, en það er jafn ljóst að það er ekki hægt að nota þá aðferð aftur. Menn geta ekki tekið tugi þúsunda tonna og grafið aftur í flæðarmálinu í kringum Kolgrafafjörðinn.

Þetta er varla spurning um hvort þetta gerist aftur, heldur frekar hvenær. Við skulum átta okkur á því að núna er verið að veiða síld rétt utan við brúna í Kolgrafafirðinum. Menn hafa lýst því að þarna sé síldin hugsanlega að þétta sig og spurningin er hvort þetta getur skollið á á næstu dögum. Hæstv. ráðherra nefndi vöktunina sem er gríðarlega mikilvæg og þá er fróðlegt að heyra hvaða líkur menn telja á að þetta gerist aftur. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, þeir sem búa á þessu svæði eru mjög áhyggjufullir um að þetta gerist jafnvel á næstu dögum eða einni, tveimur vikum. Hvernig erum við búin undir það? Margar af þeim hugmyndum sem er verið að kanna eru til bráðabirgða og ekki nein trygging fyrir að þær virki og verða alls ekki tilbúnar til að hrinda í framkvæmd ef þetta gerist á næstu tveimur vikum.

Þetta minnir okkur líka á að engar lausnir eru ásættanlegar nema þær séu varanlegar og við getum gripið til þeirra. Ég styð hæstv. ráðherra í því að leita að einhverjum leiðum til að bregðast við núna í skyndi, en á sama tíma held ég að það sé líka rétt sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, menn verða að horfa til lengri tíma og leita varanlegra lausna. Annað er ekki ásættanlegt.

Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér án þess að hafa ýkja mikið vit á því hvaða möguleikar eru í stöðunni, en hæstv. ráðherra nefndi sjálfur að ein af leiðunum væri að dæla síldinni upp með pramma. Hann talaði um að fara með hana út á fjörðinn, en ég spyr: Af hverju nýta menn ekki síldina ef þetta gerist aftur? Af hverju setja menn ekki strax dælurnar á? Í staðinn fyrir að taka áhættuna af því að þessi síld deyi inni á firðinum, rotni þar með varanlegri eitrun sem afleiðingu, ættu menn að nota þá tækni sem við höfum til að dæla upp fiski eins og síld og loðnu, nota bókstaflega þau verkfæri sem eru notuð um borð í stóru skipunum og geri verðmæti úr þessum afla.

Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða það. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við fáum að minnsta kosti arð af þessu í staðinn fyrir að bera kostnað af þeim náttúruhamförum sem þarna hafa átt sér stað.

Ég fagna þessari skýrslu og því að fyrrverandi ráðherra hafi strax lagt af stað með vöktunarhóp eða samráðshóp sem fylgist með þessu. Það kom mér á óvart að ekki skyldi vera komin varanleg sí-vöktun fyrr en núna nýlega. Ég skora á hæstv. ráðherra að leita allra leiða til að finna varanlega lausn á þessu vandamáli og styð hann í því.