143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu. Eins og fram kemur í máli hans eru miklir hagsmunir undir. Það eru ekki eingöngu þau verðmæti sem við horfum á og eru að fara forgörðum, sem er auðvitað ákaflega dapurt að fylgjast með, það eru til dæmis líka, eins og hefur komið hér fram, áhrifin á veiðistofninn. Afföll af þessari stærðargráðu hafa auðvitað mikil áhrif á stofn sem við erum að reyna að takmarka veiðar úr og þannig gæti þetta haft veruleg áhrif á afkomu veiðanna og uppbyggingu stofnsins ef eitthvert framhald yrði á þessari þróun.

Það má ekki gera lítið úr áhrifum á umhverfið. Þau eru auðvitað, eins og við höfum orðið vitni að, alveg gríðarleg og ljóst að umhverfið sem um ræðir þolir ekki annað eins áfall og við urðum fyrir síðastliðinn vetur.

Það er auðvitað verið að reyna að grípa til þeirra aðgerða og undirbúnings sem mögulegur er til að bregðast við þessu og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það í tölu sinni. Hér var tekið til umfjöllunar mál sem fjallar um að auka fjármagnið sem sett er í þessar rannsóknir og í þessa vöktun. Málið hefur nú verið afgreitt frá atvinnuveganefnd til 2. umr. og ég vona að afgreiðslu þess ljúki hér á næstu dögum. Það var enginn ágreiningur um það í nefndinni sem sýnir okkur að þetta er þverpólitískt mál og við deilum öll miklum áhyggjum af þeirri þróun sem þarna kann að verða.

Það er mikill kostnaður sem fylgir þeim mögulegu aðgerðum sem þarf að fara í og það þarf að sjálfsögðu að meta, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, og geta brugðist við ef á þarf að halda. Mesti kostnaðurinn er auðvitað við að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Það er eitthvað sem er miklu fórnandi fyrir að gerist ekki, hvort sem verður farið í að loka firðinum eða með mælingarbúnaði, eða hvaða aðgerða sem verður gripið til, er kostnaður við það eflaust lítill í fjárhagslegum samanburði við það tjón sem þarna getur orðið. Við verðum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og neyðarúrræðið verður hreinlega að heimila veiðar þarna, reyna að bregðast við og bjarga verðmætum áður en illa fer ef til þess kæmi að síldin leitaði í miklu magni inn á fjörðinn við þær aðstæður sem eru þar uppi nú.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé greinilega með sérfræðingum og vöktunarhópnum að vinna skipulega að málinu. Það leggjast augljóslega allir á eitt til þess að málið fái sem farsælasta lausn. Ég fullyrði að í þinginu, rétt eins og innan atvinnuveganefndar, er mikill samhljómur í málinu.

Ég vil þakka ráðherra fyrir þessa skýrslu um góð mál.