143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir greinargóða skýrslu um málefni Kolgrafafjarðar, en eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra drápust um 50 þúsund tonn af síld inni í firðinum í desember á síðasta ári og febrúar á þessu ári.

Samkvæmt frétt á Vísi og upplýsingum frá heimamönnum telja íbúar í og við fjörðinn að fjörðurinn verði óbyggilegur ef síld drepst þar aftur í stórum stíl. Einnig er það staðreynd að 25 þúsund tonn af síld eru nú grafin í fjörunni við Eiði í Kolgrafafirði og sjónarmið eru uppi um að landið þar geti ekki tekið við meira magni. Jafnframt hefur komið fram að íbúar í og við fjörðinn krefjast þess að loka skuli brúnni sem þverar fjörðinn til að loka honum og telja að ómögulegt sé að öðru leyti að koma í veg fyrir frekari síldardauða.

Í skýrslu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kemur fram að orsök síldardauðans hafi meðal annars verið súrefnisleysi en einnig hafi aðrir þættir haft áhrif og eru enn óljósir. Það er ánægjulegt að unnið sé að rannsóknum á þessum málum sem munu vonandi gefa betri mynd af áhættuþáttunum. Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir verður jafnvel auðveldara að taka ákvörðun um aðgerðir, þ.e. hvernig bregðast eigi við til að minnka líkurnar á að þetta endurtaki sig.

Á meðan mér finnst ánægjulegt að rannsóknir standi yfir varðandi þessi mál tel ég einnig mjög mikilvægt að samráð sé haft við þá íbúa sem í og við fjörðinn búa því að það er nú oftast þannig að þeir sem búa á svæðunum þekkja vel sitt land og vita hvernig gott er að bregðast við ástandi. Við þurfum síðan að tryggja sátt um fyrirbyggjandi aðgerðir við síldardauða. Þess vegna fagna ég að settur hafi verið á fót samráðshópur eða tengiliðahópur sem hafi það markmið að tryggja gott flæði á milli ráðuneytis, stofnana og heimamanna. Á þeim grundvelli hefur verið fjallað um ýmsar hugmyndir og tillögur er varða þetta mál, og ég tel það mjög mikilvægt og forsendu þess að fundin verði sátt í þeim málum.

Á meðan er verið að rannsaka þá þætti sem hafa áhrif á síldardauðann hefur Hafrannsóknastofnun fylgst með síldinni og þá sérstaklega á umræddu svæði. Í skýrslu hæstv. ráðherra kemur fram að fylgst er með súrefnismettun og öðrum umhverfisþáttum í firðinum og unnið er að endurbótum á þeirri vöktun sem þarna er. Í framhaldi af því er unnið að viðbragðsáætlun en auðvitað tekur öll sú vinna tíma þegar rannsóknarvinnan á að skila sínu.

Mér finnst jákvætt að Kolgrafafjörður sé í gjörgæslu á meðan unnið er að lausn á þessum málum því að við hljótum öll að vera sammála um að við viljum ekki að atburðir sem þessir endurtaki sig. Þegar síldardauðinn varð er ljóst að mikil sjón- og lyktarmengun varð á svæðinu, svo að ekki sé minnst á það tjón sem þjóðarbúið varð fyrir þegar ákveðið verðmæti tapaðist vegna minni afla út íslenska sumargotsstofninum.

Ég vil að lokum taka undir orð hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að horfa verði til framtíðar í þessum málum og meta og þróa þurfi aðgerðir sem byggja á niðurstöðum rannsókna til að koma fram með aðgerðir sem duga í þeim málum. Ég vona að tíminn vinni með okkur og við finnum lausn á þessu mikilvæga málefni okkur öllum til hagsbóta. Ég vil að síðustu þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að upplýsa okkur um gang mála.