143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja Alþingi munnlega skýrslu um þetta alvarlega mál sem gerðist í fyrra og hver staðan er núna, svo hægt sé að fylgjast með og koma í veg fyrir að þessi atburður endurtaki sig. Það er talið að 50 þús. tonn af sumargotssíld hafi farið inn í Kolgrafafjörð og drepist þar. Verðmætið þar, ef við hefðum veitt það og unnið úr því eins og við gerum mætti verðleggja á 2–3 milljarða kr. Það er rétt að hafa þær tölur í huga þegar rætt er um mótvægisaðgerðir og hvað þarf að gera. Í þinginu er tillaga um að auka fé til Hafrannsóknastofnunar úr svokölluðum síldarsjóði um 31 millj. kr. sem er verið að setja í vöktun í firðinum og það sem gert hefur verið þar hingað til. Þetta er nefnt í samhengi við hvers konar tölur er þarna um að ræða fyrir utan umhverfisáhrifin sem af því verða ef svona mikið magn fer aftur inn í fjörðinn og drepst þar. Það er rétt að hafa umhverfisáhrifin líka í huga. Hér hefur komið fram að urðuð hafi verið fyrir utan Eyri um 25 þús. tonn af síld og spurning hvað hægt er að gera mikið af því.

Þess vegna er ég mjög ánægður með það sem ráðherra hefur sagt hér og skýrt okkur frá, viðbragðsáætlunum og öllum þeim stofnunum sem koma að því að vakta svæðið svo menn geti gert sér grein fyrir því tímanlega ef líkur eru á að þetta endurtaki sig. Upplýsingar eru um að ekki sé mikið af sumargotssíld fyrir utan núna en við skulum hafa það í huga að þetta gerðist í lok desember á síðasta ári og janúar á þessu ári og allt fram í febrúar þannig að vöktunin er góð og mikilvæg.

Viðbragðsáætlunin eins og hæstv. ráðherra nefnir í öðru lagi er tilbúin og verður gripið til hennar ef þarf. Að mínu mati á að vera inni í þeirri viðbragðsáætlun að hægt verði að veiða síldina, vegna þess að ég held að við verðum ekki komin með stórar fyrirbyggjandi aðgerðir í tæka tíð, hvort sem það er að loka firðinum eða gera fleiri op þannig að sjávarskipti verði meiri eða annað. Það kostar miklu meiri peninga og krefst meiri tíma þannig að ég held að til að viðbragðsáætlunin sé virk, ef við höfum það á tilfinningunni að svona mikil síld sé komin inn í fjörðinn — ég tala nú ekki um ef háhyrningar eru utan við en talið er að þeir hafi verið rúmlega 200 í fyrra og hafi ef til vill rekið síldina þarna inn — eigi hreinlega að vera viðbúið í viðbragðsáætluninni að skip fái að veiða þá síld sem þar er. Það eigi að grípa til þeirrar viðbragðsáætlunar í tæka tíð frekar en að sjá á eftir síldinni inn í fjörðinn og hún drepist þar.

Þá kem ég að því sem hæstv. ráðherra nefndi um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvað hægt er að gera. Hann nefndi atriði eins og að loka undir brúnni. Það kostar 500–600 millj. kr., jafnvel meira. Það eru miklir peningar. Hæstv. ráðherra sagði að margir væru búnir að senda inn tillögur og ég held nefnilega að hægt sé að ganga í viskubrunn gamalla síldarsjómanna. Ég þekki gamla síldarsjómenn sem hafa lýst því nákvæmlega hvernig þeir notuðu það sem við Siglfirðingar á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði höfum uppi á vegg og heitir skilma. Það er eftirlíking af fiski, hvít á lit með blýi framan á, sem síldarsjómennirnir notuðu til að skutla í sjóinn til að koma í veg fyrir að síldin færi út úr nótinni meðan verið var að herpa snurvoðina. Þetta gafst vel og það voru miklir snillingar á hverjum bát sem höfðu þetta verkefni og sumir bátar voru með fleiri en eina skilmu. Það má geta þess, af því að hv. þm. Róbert Marshall sagði okkur sögu af sínu svæði, að Vestfirðingar kölluðu þetta ekki skilmu heldur skelmi. Ég veit ekki hvort það var í Dýrafirði eða hvar það var, en Sunnlendingar kölluðu þetta síldarfælu.

Það er hægt að hugsa sér að nota þetta og gamlir síldarsjómenn hafa nefnt það við mig að búa til eftirlíkingu af stórum fiski, ufsa, þorski eða öðru í áberandi lit og spurt hvort hægt sé að sökkva því þarna undir og festa þannig að það hreyfist svolítið til eftir straumum og hvort það hafi einhvern fælingarmátt. Í þessu tilviki er ég ekki að tala um aðgerðir sem kosta hundruð milljóna heldur tiltölulega einfalda aðferð. Ég trúi því að þessar tillögur hafi verið sendar inn líka.

En ég vil ítreka það við hæstv. ráðherra og lýsa stuðningi við allar þær aðgerðir sem hægt er að grípa til, venjulegar jafnt sem óvenjulegar, jafnvel sóttar til gamalla sjómanna eins og ég var að lýsa, það sé undirbúið og haft tilbúið ef þessi atburður ætlar að endurtaka sig.

Að lokum vil ég nota tækifærið aftur og þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þetta mál til umræðu á Alþingi vegna þess að ég held að allir séu sammála um það (Forseti hringir.) að við megum ekki láta þetta gerast aftur og þá þarf að grípa til allra þeirra ráða sem við teljum okkur geta notað til að koma í veg fyrir það.