143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Um er að ræða algjörlega fordæmalausan viðburð sem við höfum rætt hér í þinginu allt frá því í febrúar er leið. Þá þegar var settur á stofn hópur ráðuneytisstjóra til þess að taka ákvörðun og forgangsraða aðgerðum. Í apríl síðastliðinn fór sú sem hér stendur sem ráðherra málaflokksins á fund heimamanna í Grundarfirði og nágrenni, um síldardauðann í Kolgrafafirði, ásamt fulltrúum helstu stofnana sem að málinu komu sem var eins og hér hefur komið fram gríðarlegur fjöldi stofnana. Fundurinn var mjög vel mannaður. Þátttakan var góð og mikill áhugi á umræðunni. Í lok þessa fundar var tekin ákvörðun um að koma á því tengslaneti sem hér hefur komið fram í umræðunni að skipti gríðarlegu máli að haldi sameiginlega utan um þessar flóknu upplýsingar og þá miklu þekkingu sem verður að liggja undir við sérhvert skref.

Staðan er alveg gríðarlega flókin. Ég vil nota þessa stuttu ræðu mína til þess að leggja áherslu á tvennt, í fyrsta lagi mikilvægi þessa samstarfs við heimamenn, það er óendanlega mikilvægt að halda því vel á lofti, en ekki síður hef ég verið að velta því fyrir mér, virðulegur forseti, hvort tengiliðahópurinn eigi að fá skýrara umboð að því er varðar að forgangsraða þeim hugmyndum sem upp hafa komið. Með fullri virðingu fyrir ráðuneytisstjórahópum allra tíma og góðri reynslu kann að vera að við forgangsröðun hafi þeir litið meira til kostnaðarþátta til skemmri tíma en til lausna til lengri tíma. Þess vegna finnst mér mjög mikilvæg sú þekking sem tengiliðahópurinn býr yfir og að hann sé festur enn frekar í sessi undir stýri í því verkefni sem þarna er undir.

Ég vil líka, virðulegi forseti, nefna þverun fjarða sem nokkrir þingmenn hafa nefnt. Ég sagði það þegar þetta kom upp í fyrravetur að við hlytum að endurmeta þverun fjarða í ljósi þessa viðburðar, ekki bara að því er varðar Kolgrafafjörð sérstaklega og hönnun þar og flæði á sjó o.s.frv. heldur til að kanna aðrar lausnir við samgöngubætur svo sem jarðgöng þar sem þau eiga við. Það eru fjölmargar þveranir í pípunum á næstu missirum og árum, sérstaklega fyrir vestan.

Við höfum í raun skýra skyldu til að endurmeta þveranir í ljósi þessarar uppákomu, samkvæmt varúðarreglunni, svo ég nefni hana nú okkur öllum til skemmtunar, en það er auðvitað mjög mikilvægt að við horfum til þeirra ríku náttúruhagsmuna og efnahagslegu hagsmuna sem hér eru undir.

Þá alveg í lokin, virðulegi forseti, þetta er dæmi. Þetta er ekki gott dæmi, þetta er sársaukafullt dæmi um mikilvægi þess að við búum yfir góðum rannsóknum og þekkingu á samspili þátta í lífríkinu á landinu og við það.