143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:37]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir skýrsluna. Ég held að mikilvægt sé að við lærum af og nýtum okkur þessa slæmu reynslu. Með hlýnun hafsins og súrnun þess breytast fiskimiðin, þau stækka og minnka og fiskurinn færist til.

Eftir tvo vetur í röð þurfum við að koma í veg fyrir að síldin í Kolgrafafirði festist þar þriðja veturinn, og einnig að koma í veg fyrir að svipað geti gerst hjá öðrum tegundum í öðrum fjörðum. Tjón af þessu tagi er gríðarlegt efnahagslega séð og ekki síður umhverfislega og ekki bara á stofninum sjálfum heldur er umhverfistjón á landi og einnig í sjónum fyrir utan fjörðinn þar sem skortur á uppleystu súrefni hefur áhrif á allt plöntu- og dýralíf.