143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. ræðumaður þekki mig orðið það vel af langri samveru að hann viti að þótt ég hafi farið hér nokkuð mikinn í ræðu minni sé það ekki endilega ávísun á að ég geti svo ekki orðið diplómatískur og miðlað málum. Maður hefur nú lítið upp úr krafsinu nema maður komi sinni skoðun svolítið fast á framfæri, það er mín reynsla.

Að sjálfsögðu væri mikið fagnaðarefni ef það andrúmsloft gæti myndast, og ég hef nú reynt að tala svolítið inn í þann veruleika, m.a. beint máli mínu til stjórnarþingmanna, nefndarmanna í umhverfis- og skipulagsnefnd. Vonandi er það ekki þannig að hæstv. ráðherra mundi leggja stein í götu þess að menn gerðu tilraun á vettvangi nefndarinnar til að setjast yfir málið og velta fyrir sér ýmsum leiðum í þessum efnum. Ég get tekið undir að það sem manni væri náttúrlega mestur akkur í væri að nýmælin í lögunum og meginreglurnar, varúðarreglan og annað í þeim dúr, fengju að viðhaldast inni í löggjöf, það væri verulegur ávinningur í því einu og sér.

Hitt atriðið sem ég er hvað uppteknastur af gerði ég talsvert að umtalsefni hér. Mér finnst alveg ómögulegt að þetta verði til þess að tefja enn frekar að við komum böndum á vegamál og akstursmál. Það er gríðarlega áríðandi og brýnt og við höfum ekki mikinn tíma til þess. Það er alveg augljóst að það kallar á ný lagaákvæði. Gömlu lögin hafa verið það sem við höfum haft og við vitum hvernig það hefur gengið. Það þarf nýja nálgun, einhvern nýjan grunn til að byggja þau mál á.

Stutta svarið er auðvitað já, að sjálfsögðu, ef það andrúmsloft getur myndast. Við höfum alveg tímann til þess, ég tek undir það. Ég held að vösk nefnd væri tiltölulega fljót að því að einhenda sér í þá vinnu, sem því miður var ekki unnin í ráðuneytinu, að greina helstu álitamálin. Þau eru hugsanlega ekki nema þrjú, fjögur þegar upp er staðið, miðað við það sem ég man af þessari helstu gagnrýni. (Forseti hringir.) Og sumpart var þar misskilningur á ferð þannig að þetta ætti ekki að vera mjög flókið.