143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Raunsæismenn horfast í augu við stöðuna eins og hún er á hverjum tíma og leggja það niður fyrir sér hvernig er hægt að ná skástum árangri, þó að menn fái ekki kannski allt sem þeir vilja. Að mínu mati er náttúrlega einfaldast að þessi lög öðlist gildi eins og þau eru og komi í ljós að eitthvað megi þar betur fara hefur annað eins gerst og að það hafi verið lagfært í ljósi reynslunnar af framkvæmd þeirra laga. Ég fullyrði algerlega hreint að þau mega ganga í gildi nákvæmlega eins og þau eru og það væri í góðu lagi af minni hálfu.

Ef hægt væri með einhverjum samtölum og skoðun að fara yfir nokkur helstu núningsatriðin og gera þar einhverjar lagfæringar væri það náttúrlega albest, menn breyttu þá því sem til þyrfti næðist með því betri samstaða. Það væru auðvitað ýmsar „varíasjónir“ þar á ofan eins og að fresta gildistöku einhverra afmarkaðra kafla, það er hægt. Það er margt í þessu mögulegt ef viljinn er til staðar.

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra tali einhvern tíma síðar í umræðunni og það verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur um svona hugmyndir að segja. Ég hef vitnað í sögulegar hefðir í sambandi við að umhverfisnefnd eða umhverfisnefndir þingsins hafi stundum verið atkvæðamiklar við að breyta málum ráðherra, ég sæi ekkert að því í þessu tilviki. Í raun og veru væri hægt að gera þetta frumvarp mjög einfaldlega óþarft með því að fara í smávægilegar breytingar — ef það yrði niðurstaðan — á lögunum sem eiga að öðlast gildi 1. apríl og þá væri málið í höfn. Við skulum bíða og sjá en ég heyri hvað hv. þingmaður segir, hann er áhugamaður um að reyna að miðla málum og finna á þessu einhverja samkomulagslausn og mér finnst aldrei óskynsamlegt að slíkt sé lagt til.