143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf kannski meira en tvær mínútur til að halda alveg fullboðlegt námskeið um hvað það er að vera umhverfisverndarsinni eða umhverfissinni. Ætli það sé ekki í sem grófustum dráttum fólk sem vill passa upp á náttúruna og umhverfið, fólk sem er farið að gera sér annaðhvort grein fyrir mikilvægi þess málaflokks og samhengi við framtíð lífs á jörðinni gagnvart þeim hlutum, fólk sem hefur orðið einhverja nasasjón af grundvallarreglum sjálfbærrar þróunar, sem hefur ákveðið að taka þá ábyrgu, siðferðilegu afstöðu að það vill ekki lifa um efni fram og ganga á gæði jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða þannig að lífsskilyrði þeirra verði lakari og náttúran sem börnin okkar og barnabörnin fá í hendur verði skert.

Þetta getur líka verið mjög persónulegt. Þetta getur snúist um persónulega upplifun og tilfinningu manna af því að þeir hafa kynnst landinu, farið að elska það, þeim þykir vænt um það eins og það er. Ég held að það sé voðalega erfitt að skilgreina og ákveða hvað eitt umfram annað ræður því að fólk tekur afstöðu með náttúrunni, lítur á sig sem umhverfisverndarsinna eða umhverfissinna. Það getur verið blanda af mörgu þessu.

Almennt hefur orðið mikil umbylting í viðhorfum og umfjöllun um þessi mál þannig að fáir viðurkenna opinberlega að þeir geri ekkert með þetta. Það heyrast kannski svoleiðis raddir sem enn þá hafna því að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, að það séu bara einhverjar hégiljur vitleysinga. Þeim fer mjög fækkandi, sem betur fer. Að vísu erum við Íslendingar svo óheppnir að við sitjum uppi með einn af örfáum fjölmiðlum heimsins sem er enn svolítið að daðra við þær hugmyndir að þetta sé sennilega allt saman vitleysa með loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Það er nú fátítt, að uppistöðu til eru Íslendingar auðvitað allir mjög hændir (Forseti hringir.) að sínu landi og umhverfissinnar í þeim skilningi.