143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú vil ég biðja hv. þingmann sérstaklega um eitt, það að taka ekki til sín persónulega eða persónugera hluti þegar engin ástæða er til. Á þingi tökumst við oft á um málefni. Það eiga menn aldrei að taka persónulega til sín þó að við séum ósammála um málefni.

Þegar ég segi að Framsóknarflokkurinn sem flokkur sé heillum horfinn á ég ekki við hvern einasta flokksmann, fjarri því. Ég á við þá afstöðu sem flokkurinn hefur tekið og framgöngu hans eins og í þessu máli. Mér finnst það vera flokkur sem er heillum horfinn sem nálgast umhverfismálin eins og það sé bara ekkert mál að henda nýju náttúruverndarlögunum og gera ekkert með alla þá vinnu sem þar var unnin. Það breytir ekki því að innan flokksins er örugglega fullt af vel þenkjandi fólki sem vonandi er meðal annars ekki sátt við þetta.

Að sjálfsögðu sláum við ekki eign okkar á umhverfisvernd og segjum ekki að öllum sem aðhyllast aðrar stjórnmálastefnur geti ekki þótt vænt um landið sitt og viljað ganga vel um það eins og ég held að Íslendingar geri að uppistöðu til. En við verðum líka að hafa einurð í okkur til að ræða framgöngu manna og flokka og þá stefnu sem þeir hafa í málum af þessu tagi og sérstaklega gerðir þeirra. Þegar upp er staðið er það það sem skiptir mestu máli.

Þar er ferill Framsóknarflokksins ekki nógu góður og hann má muna sinn fífil fegri frá því að forustumenn hans á hinni öldinni höfðu sumir hverjir metnað til þess að gera hann í raun og veru að hinum græna flokki Íslands. Það fór öðruvísi. Fáum dettur það í hug þegar Framsóknarflokkinn ber á góma í dag og aðrir flokkar hafa tekið það merki upp sem betur fer og veitir ekki af.