143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er, herra forseti, sem hæstv. ráðherra er á móti og þá ríkisstjórnin öll. Ef það er varúðarreglan tel ég að það sé ekki mikill flötur til sátta. En það er ekkert víst, látum á það reyna.

Eins og gamall vísindamaður byggi ég bara á staðreyndum. Þær staðreyndir sem ég hef fyrir framan mig eru tvenns konar, greinargerðin sem hæstv. ráðherra leggur fram með frumvarpinu og ræða hans í gær. Í ræðu hans í gær var að finna einungis eitt meginatriði, tel ég, það var færsla á skipulagsvaldi frá sveitarfélögum til ríkisins. Hitt var kostnaður og ég gef ekkert fyrir það við svona lög, 100 millj. kr. kostnað.

Ef hv. þingmaður vill að öðru leyti fá einhverjar vísbendingar er náttúrlega óþægilegt fyrir framkvæmdaglaða ríkisstjórn sem er kannski orðin svolítið taugaveikluð yfir að lítið er að gerast að hafa svona lög sem hún telur að kunni hugsanlega að (Forseti hringir.) þvælast fyrir henni. Lengi skal þó manninn reyna.