143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði stundum sem ráðherra þegar ég fór með framkvæmdarvald að stjórnvaldið yrði alltaf að vera búið undir það sem allir telja óhugsandi. Þess vegna tel ég að þetta sé möguleiki en fjarlægur er hann, að menn beinlínis markaðssetji landið út á það, ég tel það hæpið en ekki er hægt að útiloka það. Ég held að menn mundu þá bregðast til varna.

Hv. þingmaður veltir síðan fyrir sér, eins og fleiri, hvað vaki fyrir ráðherranum. Nú er þessi ráðherra svolítið sérstakur að því leyti til að hann er yfirleitt ekki að skafa utan af skoðunum sínum. Hann segir þær út og hefur stundum uppskorið fyrir ærið andstreymi á stuttum ráðherradögum. Þess vegna tók ég það sem hann sagði og skrifaði í greinargerðinni eins og þar stóð og var sagt. Þar telur hann upp ýmislegt, hann telur upp boð og bönn, óljós valdmörk millum ríkisstofnana, millum ríkis og sveitarfélaga. En það er bara eitt sem skiptir máli sem hann lagði áherslu á í hvoru tveggja og það er færslan á skipulagsvaldinu eða hluta þess, mjög litlum parti, tímabundið frá sveitarfélögum til ríkis. Eins og við vitum er það heilagt mál í augum sveitarstjórnarmanna og það er ekkert sem kemur þeim jafnmikið úr jafnvægi. Og nokkrir eru hér í salnum og eru allir eldrauðir í framan þegar ég segi þetta.

Ég tel að um þetta væri hægt að ná sátt, en ef menn eru hér í einhverju giski, ef maður fer vísbendingaleið væru vísbendingarnar þessar: Yfirlýsing iðnaðarráðherra á fundi Landsvirkjunar, bréf fjármálaráðherra til formanna þingflokka, tilkynning um hluthafafund í nokkrum ríkisfyrirtækjum, yfirlýsingar um að spretta upp rammaáætlun, mikil yfirlýst löngun um að fara í Norðlingaölduveitu. Þetta eru vísbendingarnar.