143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Nei, alls ekki, ég tel það ekki sjálfur, og það er mjög í anda þess skikks sem var á Mýrum vestur þar sem ég ólst að hálfu leyti upp í grónu bændasamfélagi. Hins vegar var það ráðherrann sem lagði þetta sem röksemd á borðið. Og ég vil semja við ráðherrann í þessu máli. Ef hæstv. ráðherra telur að breyta þurfi þessari skilgreiningu þá er ég sannarlega reiðubúinn að skoða það. Ég teldi nú að eitthvað slíkt væri ákaflega lítið verð fyrir ýmislegt annað sem hægt væri að ná fram ef samkomulag næðist.

Ég orðaði það svo að þetta væru bara skavankar sem væri hægt að ráða auðvelda bót á. Hæstv. ráðherra taldi að vísu í ræðu sinni í gær að þetta væri töluvert afdrifarík orðskýring. Hann sagði að hún væfi sig í gegnum frumvarpið allt. Ég þekki það svo sem ekki nógu vel, kannski af því að ég er ekki alveg út í ystu háræðar þessa frumvarps kunnur. En ef hann segir það er ég reiðubúinn að skoða það mál eins og önnur.