143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fína yfirferð yfir það frumvarp sem hér er til umræðu. Mér finnst það vera að skerpast, eftir því sem umræðunni vindur fram, að áformin eru í raun órökstudd. Hvort sem maður hlustar á framsöguræðu hæstv. ráðherra, les greinargerðina eða reynir að rýna í það sem ráðherrann sagði í fjölmiðlum, þegar hann boðaði afturköllunina svo eftirminnilega á sínum tíma, þá er hann að tína upp hitt og þetta til að rökstyðja þessa leið. En maður hefði haldið að til þess að rökstyðja svo afgerandi frumvarp þyrfti afgerandi greinargerð og afgerandi rök.

Ég mundi gjarnan vilja heyra hv. þingmann segja skoðun sína á því hver hann telji rökin vera. Bæði er hér talað um orðskýringar og minni háttar mál og um efnislega þætti eins og utanvegaakstur og eitthvað slíkt en svo berast böndin að sérstakri vernd og varúðarreglunni þó að ráðherrann nefni það aldrei. Það eru hins vegar þau atriði sem Samtök atvinnulífsins og framkvæmdaaðilar í samfélaginu gerðu mestar athugasemdir við á sínum tíma, ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér það. Ef böndin fara að berast að þessari ástæðu einni og sér þá er vandséð að hægt sé að ná einhverju samtali af viti því að þar er í raun um að ræða sálina og hjartað í löggjöfinni, allt annað í löggjöfinni hverfist um þessi meginprinsipp sem eru þau að náttúran njóti vafans.