143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð einlæglega að svara því þannig að ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hver ástæðan er. Ég hafði uppi ýmsar getgátur og dró fram þær spurningar sem ég fékk úti í samfélaginu. Ég ætla að gefa mér það að vilji ráðherrans standi til náttúruverndar. Maður getur þá velt fyrir sér, hvers vegna er farin þessi leið? Hér taldi hv. þm. Össur Skarphéðinsson upp hugsanlegar skýringar eða tengingar við það sem er að gerast akkúrat þessa dagana, afstaðan til Norðlingaöldu, afstaðan til breytingar á stjórnum orkufyrirtækja. Býr eitthvað að baki? Ef það er eitthvað sem ég á að nefna þá óttast ég að hæstv. ráðherra telji að með lagafrumvarpinu hafi verið stigið á tærnar á einhverjum hagsmunaaðilum sem hann telur ástæðu til að verja.

Það verður auðvitað hlutverk okkar hér í þinginu og hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd að kalla eftir þessum atriðum. Mér finnst þingið setja niður ef það lætur henda út nýju frumvarpi án þess að ítarlegar skýringar komi á því hver ástæðan er. Þess vegna á líka að hugleiða alvarlega hvort þingið taki ekki málið í sínar hendur og breyti frumvarpinu í samræmi við ósk nýs meiri hluta á þinginu og þá í anda þeirrar sáttar að allir geti sætt sig við það með hjásetu eða stuðningi. Það væri verðugt verkefni fyrir þingið og miðað við þær ræður sem voru fluttar hér á síðasta kjörtímabili væri gaman að sjá það gert. Það eru mörg dæmi um að slík frumvörp (Forseti hringir.) hafi orðið til í meðförum nefndar.