143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þingið búi yfir liðsmönnum eins og hv. þm. Guðbjarti Hannessyni sem hefur þann eiginleika sem endurspeglast ítrekað í málflutningi hans að trúa því besta um fólk. Þegar hann segir hér að hann trúi því að vilji ráðherra standi til náttúruverndar er hann góðgjarnari en sú sem hér stendur því að það er því miður allt of margt sem bendir til hins gagnstæða og hv. þingmaður nefndi það svo sem í sínu máli. Það er reyndar mjög óvenjulegt að í umhverfisráðuneytið setjist maður sem leggur til nánast á sama degi að ráðuneytið verði lagt niður. Það er eiginlega alveg með ólíkindum. Það er eins og að vera með heilbrigðisráðherra sem er á móti heilbrigðiskerfi eða menntamálaráðherra sem hefur fyrirvara á skólagöngu. (Gripið fram í.)

Það er í raun staðan sem ráðherrann ákvað sjálfur að taka sér í málaflokknum til að byrja með. En hins vegar vil ég taka undir það sem fram kemur hjá hv. þingmanni, bæði í ræðu hans og hér í andsvari, ég fagna áherslu formanns umhverfis- og samgöngunefndar og þeirri áherslu sem hann lagði í fjölmiðlum í morgun í þá veru að full ástæða sé til að skoða þetta mál í kjölinn, skoða á því allar hliðar og fá gesti á fundi nefndarinnar, þá sem um það hafa fjallað á fyrri stigum og svo framvegis því að það er alveg með ólíkindum að taka svona mikla vinnu og henda henni til hliðar. Ég höfða til sjálfstæðis hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og vænti þess að hann muni leiða nefndina með gagnrýnu hugarfari með það að markmiði að ná upplýstri (Forseti hringir.) niðurstöðu og vænti þess að hv. þm. Guðbjartur Hannesson sé mér sammála um það.