143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að ég sé að oftúlka væntingar eða tilætlun hæstv. ráðherra. Það er þó þannig þegar við biðjum um reglur eins og til dæmis varðandi utanvegaakstur, 95% þeirra, eða meira, sem keyra á hálendinu á Íslandi vilja vernda náttúruna. Þegar maður ferðast í því umhverfi vill maður vita hvað maður má og hvað ekki þannig að maður geti farið eftir lögum. Þetta er ein af þeim tilraunum sem voru gerðar í nýju lögunum en svo hopa menn frá því og þá skapast óvissa um hvenær verið sé að brjóta lög og hvenær sé ekki verið að brjóta lög. Mér finnst það skipta máli.

Það er verið að hjálpa fólki að skilgreina í sameiningu umgengni við náttúruna okkar, hvernig við umgöngumst hana, hvaða rétt fólk hefur. Fólk vill almennt fara eftir því. Við getum svo í sameiningu slegist við hina. En það vill gjarnan gerast þegar reglurnar eru óskýrar og ekki búið að skilgreina hvað má og hvernig á að fara um land að menn brjóti lögin óviljandi. Það gildir um bændur líka. Langflestir gera sér alveg grein fyrir samhenginu, að þeir hafi mikilla hagsmuna að gæta og þeir vilja vernda náttúruna. Ég hef enga ástæðu til þess að tala niður vilja fólks til að vernda náttúruna. Það hefur líka verið beðið um að reglur séu skýrar til þess að menn viti hvað má og þurfi ekki að velkjast í vafa um það.

Ég tel að það eigi að fara í þessa vinnu, að það eigi að kortleggja og kalla eftir því hvað það er sem stendur út af, hvar sé gengið of langt, hvar vanti samráð, hvaða skýringar vanti varðandi stofnanir. Það væri svo allt saman tekið fyrir í nefndinni og reynt að kortleggja, og ef lögunum verður ekki beinlínis breytt verða að minnsta kosti gefin skýr skilaboð til hæstv. ráðherra og þeirrar nefndar sem hann ætlar að skipa (Forseti hringir.) til að vinna með málið um á hvaða grunni þeir eigi byggja þetta frumvarp.