143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því sem ég get þó ekki kallað andsvar frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni vegna þess að í rauninni erum við sammála um það sem hann leggur hér fram. Í fyrsta lagi finnst mér skipta gríðarlega miklu máli það sem hv. þingmaður er sammála mér um, að þegar við skoðuðum umsagnir um frumvarpið á sínum tíma þá gátum við ekki stillt mönnum upp sem andstæðingum eða stuðningsmönnum og getum ekki enn. Hæstv. ráðherra sagði að öll samtök hefðu verið á móti frumvarpinu. En ef við tökum samtök sem verið hafa með fjallaferðir hér og suma af þessum jeppaklúbbum eða hvað á að kalla það, þá eru þar margir af mestu náttúruelskendum þessa lands sem hafa mikinn áhuga á því að vita nákvæmlega hvar má fara og vilja setja reglur með okkur um það hvað má og hvað má ekki. Það skiptir auðvitað mestu máli að finna út með hvaða hætti það er gert en það kostar skilgreiningar, það kostar líka að það þarf að forgangsraða hvaða svæði má nota og hver ekki.

Sama gildir um bændurna, af því að ég nefndi þá áðan. Hvernig notar maður t.d. fjórhjól sem eru orðin hluti af atvinnutækjum bænda? Það er mjög vandmeðfarið mál. Þarna eru bölvaðir slóðar sem fara illa með landið en aðrir, langflestir vilja hafa þetta í lagi og bera virðingu fyrir þeirri jörð sem þeir eru að rækta.

Ég fagna því þess vegna að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, boði það hér að það verði vönduð vinna í nefndinni, að leitað verði að því hver ágreiningurinn er, um hvað við erum sammála og hverjar megináherslurnar eru. Þannig getum við með heildstæðum hætti annað tveggja endurskoðað frumvarpið eða sett það sem klárar og skýrar leiðbeiningar til endurskoðunarinnar til hæstv. ráðherra.