143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo sem ekki mikið að rökræða hér en mér heyrist við hv. þm. Guðbjartur Hannesson vera á frekar svipuðum nótum. Ég held að við séum nokkuð sammála um að átök síðustu ára, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þurfum við að reyna að forðast hér á Alþingi í lengstu lög og reyna enn frekar en áður að ná fram einhverri sátt. Það þýðir að sjálfsögðu að allir þurfa að mætast. Við skulum sjá hvort það tekst í umhverfis- og samgöngunefnd.

Við höfum ágætistíma til stefnu. Það er í sjálfu sér ekkert sem liggur á að fella þessi lög úr gildi, þau hafa ekki tekið gildi formlega, taka ekki gildi fyrr en 1. apríl. Ef okkur tekst í góðri samvinnu og sátt, eins og mér heyrist stemmning vera fyrir, og ég er mjög glaður að heyra það, þá held ég að við getum komist töluvert lengra í því að móta ný náttúruverndarlög sem ég vonast til að friður verði um í framtíðinni.