143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að það virðist vera meiri pólarísering hér á landi en víða í löndunum í kringum okkur. Ný ríkisstjórn virðist hafa það sem leiðarljós að færa í fyrra horf, að vilja ekki horfa til framtíðar, vilja ekki horfast í augu við vaxandi kröfu almennings um að náttúra og umhverfi séu látin njóta forgangs. Raddir öfgahægrimanna um að loftslagsbreytingar séu ekki af mannavöldum, loksins er verið að kæfa þær, enda erum við farin að lifa í miðjum afleiðingum loftslagsbreytinga, síðast á Filippseyjum. Nánast allir eru sammála um að ástandið þar sé afleiðing loftslagsbreytinga. En nýja hægri stjórnin á Íslandi virðist ekki fylgja þeim alþjóðlega straumi.