143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú nokkur vandi á höndum og ég ætla ekki að fara að gera kjósendum stjórnarflokkanna upp skoðanir. En ég veit af eigin reynslu að innan Framsóknarflokksins er fólk sem er sannarlega náttúruverndar- og umhverfissinnað og ég vona að það fólk rísi upp og setji forustu síns flokks ákveðnar skorður.

Í íslensku samfélagi er megnið af ungu fólki, konur í meira mæli en karlar, mjög fylgjandi náttúruvernd og umhverfisvernd og þessi krafa fer sífellt vaxandi. En það er líka fjöldinn allur af körlum, ekki síst körlum á landsbyggðinni, sem gera sér grein fyrir því að þau mestu verðmæti sem við eigum er íslensk náttúra og ýmsar af íslensku auðlindum okkar, hvaða nafni sem þær nefnast, og við þurfum að fara vel með þau verðmæti, ekki síst fyrir komandi kynslóðir.