143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en vil benda honum á að ég sagði síðast þegar ég steig hérna í stólinn að ég vissi að það væri fjöldinn allur af fólki sem aðhylltist náttúruvernd og umhverfisvernd í Framsóknarflokknum og taldi að það fólk hlyti að gagnrýna forustu sína fyrir þetta mál.

Tvær klukkustundir í málþófi er náttúrlega firra. Hér eru stjórnarliðar sem samþykktu þetta sem lög með meiri hluta atkvæða á Alþingi fyrr á þessu ári að fara yfir afstöðu sína og mótmæla því að hæstv. ráðherra meðhöndli ákvarðanir þingsins og löggjöf með þessum hætti.

Varðandi það af hverju við kláruðum ekki málið þá fór ég yfir að við kláruðum auðvitað málið. Lögin eiga að taka gildi 1. apríl 2014 og það kom til af því að stjórnarandstaðan beitti hér mjög stífri andstöðu í nánast öllum málum og þetta varð niðurstaða úr samningsumleitun. En lögin voru samþykkt.