143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Það var og, herra forseti. Það er nefnilega minni hluti og meiri hluti, þannig er það bara. Þetta er meðferð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á valdi og mikið afskaplega er það ógeðfellt.

En varðandi meiri hlutann hér á þinginu á síðasta kjörtímabili þá fór ég yfir það í máli mínu að það voru 38 þingmenn sem sátu á þingi þá sem studdu málið. Hverjir voru viðstaddir atkvæðagreiðslu er ég ekki með hér á hreinu en þetta getur hv. þingmaður fengið staðfest leiti hann eftir því. Ég fór einmitt yfir það að það voru jafnmargir þingmenn sem þá studdu ekki endilega ríkisstjórnina en studdu þessi mál. Þetta er alvarlegra mál en svo að það kalli á einhvern orðhengilshátt um meiri hluta og minni hluta. Hér er einfaldlega verið að vanvirða nýsetta löggjöf Alþingis.