143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég held að mjög mikilvægt sé að þeir sem ætla að fjalla um þetta mál, ég tala nú ekki um styðja það, kynni sér það mjög vel. Hér áðan var hv. þingmaður sem kvartaði yfir því að ég hefði í ræðu minni ekki farið efnislega í málið, en ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að það væri eiginlega efnislega ekki mjög ljóst hvert ráðherra væri að fara. Ég valdi í 1. umr. að fara yfir þá pólitík sem felst í því að afturkalla lög sem þessi, af því að það er á þessari stundu stóri alvarleiki málsins. Fyrir nefndina komu á sínum tíma 33 gestir og fjöldi umsagna barst, hér er farið mjög ítarlega yfir frumvarpið og svo er skjal með breytingartillögum. Ég held að þingmenn þurfi að fara í ansi mikla efnisvinnu á þessum stóra og vel undirbúna lagabálki ef þeir ætla að treysta sér til að fella þessi lög úr gildi. (Forseti hringir.)