143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggja hæstv. ráðherra orð í munn. Eins og ég hef sagt hér áður er þetta eitt af því sem veldur okkur áhyggjum vegna þess hvernig málið kemur inn í þingið. Ef hann hefði komið hingað inn með málið og sagt að hann hefði áhuga á því að breyta einhverjum tilteknum greinum vegna þess að honum þættu þær ekki nógu skýrar eða eitthvað slíkt þá hefði málið horft öðruvísi við. En þegar á að setja málið allt út af borðinu — og gömlu lögin halda þá gildi þar sem þessar skorður eru ekki settar, sem voru mjög vel negldar niður í nýja frumvarpinu — þá leiðir það auðvitað hugann að því að það verði á kostnað náttúrunnar.

Ég hef miklar áhyggjur af því, eins og kom fram hér í umræðunum, að það verði ekkert frumvarp lagt fram um þetta mál á þessu kjörtímabili. Mér finnst það, eins og flestum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni, afar vont mál. Ég skil ekki alveg enn þá og ég vona að hæstv. ráðherra færi fyrir því rök af hverju hann gat ekki gert þetta með fyrrgreindum hætti. Ég vona líka að hann gefi upp hvenær hann ætlar að leggja fram nýtt frumvarp.

Eins og ég sagði um mál hans hér áðan þá veldur það auðvitað ugg þegar ýta á varúðarsjónarmiðum í umhverfisnefnd til hliðar, að hans mati, til að koma á koppinn einhverjum virkjunarkosti. Það eitt og sér dugar mér til að tala hér lengi ef þess gerist þörf til að vekja vonandi sem flesta til umhugsunar um að þetta er ekki einfalt mál sem við getum ýtt sisvona í heild sinni út af borðinu eftir alla þá vinnu sem fram hefur farið.