143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, hv. þingmaður, og ég stend alveg við það, málið er umdeilt. Þess vegna erum við að ræða það. Þess vegna ræddum við það mjög ítarlega síðastliðið vor og ég hvet hv. þingmann til að lesa ræður samflokksfólks síns og segja mér svo hvað honum finnst um innihald, efnislegar umræður, þótt ég ætli honum ekki að eiga það. Það er þannig að hér í þessum ræðustól gerist „debattinn“, svo ég sletti nú aðeins, með öðrum hætti en í sveitarstjórnum sem við þekkjum bæði vel til. Hér tölum við svona hvert við annað og stundum er það þannig, eins og í þessu tilfelli, að við erum öll sammála um hver ágreiningsmálin eru en við viljum ekki fara sömu leiðir að því markmiði að leysa þau. Það er kjarni málsins held ég. Það er þannig. Það verður aldrei komið til móts við alla alltaf. Ég stend líka við það.

Eins og ég segi ég hvet hv. þingmann til að fara yfir ræður síns fólks, hlusta á það sem við erum að segja. Ég held að ein ræða mín hafi verið ágætlega innihaldsrík og ég held að hún hafi verið ágætlega efnisleg. Ég bið hv. þingmann að benda mér á ef það er eitthvað sérstakt sem honum fannst ekki efnislegt eða eitthvað sem hefði ekki átt að segjast. Ég bið hann þá líka og ég hygg best að spyrja hann til baka hvort hann telji í hjarta sínu að þetta sé eitthvað sem réttast sé að gera eða hvort hann telji að hægt hefði verið að fara ofan í þetta eins og við höfum mörg hver talað um, með því að taka það sem erfiðast reynist og leysa hvert atriði fyrir sig en ekki setja lögin öll út af borðinu.