143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:30]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sat ekki á Alþingi á síðasta kjörtímabili og sit hér ekki heldur sem þingmaður á þessu kjörtímabili, ég kem inn sem varaþingmaður og það er mér heiður að fá tækifæri til þess. Ég verð að fá að segja upphátt hversu hissa ég er, hversu rosalega hissa ég er, á vinnubrögðunum hér. Maður hafði haft veður af því hvernig umræðan væri á Alþingi og hvernig mál væru unnin og allt kristallast það og opinberast í því hvernig á að keyra þetta mál áfram. Mér finnst þetta einkennast af offorsi og lélegum vinnubrögðum. Ég neita að sitja undir því að ég sé hér í pontu til að taka þátt í málþófi. Ég væri alveg til í að vera heima hjá mér að vefja utan um mig Íslandstreflinum og baka pítsu fyrir leikinn sem byrjar eftir 25 mínútur. En mér er ofboðið þannig að ég kýs að vera hér og taka þátt í þessari umræðu. Það er alveg á hreinu að flestallir þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eru einmitt að troða sér í Íslandstreyjuna sína og undirbúa sig fyrir stórleikinn.

Mér skilst þó, á þeim ræðum sem ég hef hlustað á úr þessu fallega púlti, að þegar þessi náttúruverndarlög voru samþykkt — í raun var verið að færa löggjöfina til nútímans frá árinu 1999 — hafi enginn verið á móti. (Gripið fram í.) Einhverjir sátu hjá, en enginn var á móti. Það sætir furðu að við skulum vera að afturkalla lög sem enginn var á móti fyrir korteri. Ef það er svo mikilvægt að kalla eftir víðtækri sátt, eins og endalaust er verið að tala um, af hverju er þá ekki fyrst og fremst reynt að ná sátt þingmanna sem sitja á Alþingi á þessu kjörtímabili um þetta mál? Mér finnst það eiga að ganga fyrir allri þeirri sátt sem verið er að kalla eftir að hér sé þverpólitísk sátt um að skoða ákveðna lagabálka og annað — og menn hafa rétt út höndina og boðist til þess úr þessu púlti, en það á sem sagt ekki að hlusta á það, virða það eða taka mark á því, það á að keyra þetta í gegn.

Hæstv. umhverfisráðherra situr í salnum og síðan er hér annar varaþingmaður eins og ég í salnum en annars eru þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í samræðum hver við annan um þetta mikilvæga mál. Mér finnst það svolítið skrýtið, ég verð að segja það. Komandi af sveitarstjórnarstiginu veit ég ekki alveg hvernig yrði brugðist við því ef fólk í minni hluta sæti uppi með að þurfa bara að tala hvert við annað. Það yrði fljótt gagnrýnt.

Mér finnst þetta erfitt mál og mjög skrýtið. Það hefur verið minn akkíllesarhæll í pólitík að ég hef alltaf verið svolítið græn og ekki séð í gegnum plottin og á stundum erfitt með að taka þátt í slíkum leik, en þetta frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd nr. 60 frá árinu 2013 — það hrópar á mig að eitthvað liggur þarna að baki. Það þarf engan geimvísindamann til að átta sig á því, umhverfissinna eða ekki, og það þarf ekki vanan þingmann heldur til þess að átta sig á því.

Greinargerðin sem fylgir — ég hef farið yfir það í ræðu úr þessu púlti áður, gerði það í gær — finnst mér líka rosalega skrýtin. Hér er verið að tala um að sveitarfélögin hafi andmælt mjög. Ég hef verið sveitarstjórnarfulltrúi í sjö og hálft ár og hef aldrei orðið vör við það. Ef sú umræða fór fram hefur hún farið fram á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, það hefur gefið út ákveðnar tilskipanir. (Gripið fram í.) Af 75 sveitarfélögum — það væri þá gaman að fá þau nafngreind.

Hér er verið að tala um að skipulagsvald sveitarstjórna yrði skert. Það finnst mér vera dropi í hafið hvað varðar aðkomu sveitarfélaga að náttúruverndar- og framkvæmdamálum, t.d. í upplöndum og öðru. Sveitarfélög fara með fráveitu, vatnsveitu, eru með umhverfisnefndir, eru yfirleitt með umhverfisstefnu, fara með sorphirðu, urðunarmál og allt sem því fylgir. Það að afnema eigi þessi lög eingöngu út af því að skipulagsvald sveitarfélaga yrði skert og það vegna þess að ekki er samstaða um friðlýsingu á vatnsverndarsvæðum og jarðhitasvæðum — ég set líka spurningarmerki við það. Það getur vel verið að einhver frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hringi í mig á eftir og húðskammi mig, en það er mín skoðun, verandi sveitarstjórnarfulltrúi, að taka þurfi til hendinni í vatnsverndarmálum á landinu. Ég get nefnt sem dæmi að á höfuðborgarsvæðinu mun íbúum hafa fjölgað um 70.000 manns árið 2040, þ.e. í sveitarfélögunum Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ, samanlagður íbúafjöldi. Ef byggðin þróast eins og hún er að þróast hér upp til fjalla eru vatnsverndarsvæðin okkar víkjandi og það er slæmt, það er mjög slæmt. Við erum að tala um vatn, grunnstoð í samfélaginu.

Ég mundi vilja sjá ríkisvaldið koma þarna inn, stíga þarna inn, hafa skýrar skoðanir þannig að einstakir sveitarstjórnarfulltrúar, eða sveitarstjórnir, geti ekki verið að skipuleggja eitthvað sem í raun gæti valdið skaða til framtíðar á vatnsbólum okkar. Mér finnst líka mikið gert úr andstöðu sveitarfélaganna. Það er fallegt að hafa samráð við sveitarfélögin og hefði kannski mátt gera það í fleiri málum hingað til, en mér finnst þetta vera skálkaskjól og mér finnst hrópandi að eitthvað annað liggi hér að baki.

Við höfum einnig farið yfir það, ég fór yfir það í ræðu minni í gær, að þessi kostnaðarauki á sveitarfélögin, upp á 20–50 milljónir, muni knésetja íslensk sveitarfélög, það er notað sem afsökun. Ég kaupi það ekki, engan veginn; 20–50 milljónir sem dreifast kannski á 75 sveitarfélög er dropi í hafið þegar að þessu kemur, sveitarfélög sem velta milljörðum á ári. Ég sé því ekki að það eigi að vera óyfirstíganlegar upphæðir. Hér er líka verið að tala um að skipa þurfi sértækar náttúruverndarnefndir; ég veit ekki betur en þær séu starfandi í flestöllum sveitarfélögum, umhverfisfulltrúar og embættismannakerfi sem uppfyllir allar kröfur. Það má þó alltaf gera betur þegar kemur að náttúruvernd.

Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þegar hún nefnir ákveðna klausu í greinargerðinni, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ekki er hægt að áætla með nákvæmum hætti hversu umfangsmikil og tímafrek vinna yrði við endurskoðun laga nr. 60/2013 og því ekki ljóst hversu langan tíma tæki að leggja fram drög að nýju frumvarpi.“

Þremur málsgreinum síðar segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp muni samt sem áður að einhverju leyti byggja á þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á vegum umhverfisráðuneytisins við endurskoðun löggjafar um náttúruvernd.“

Ég vona að þar sé verið að tala um hvítbók nokkra sem ég hef fengið að skoða, sem er svona tæpar 20 merkur, samt er ekki talað um það beint í þessari greinargerð og mér finnst það miður. Hér er verið að tala um að eyða eigi óvissu en óvissan blasir við mér, ekkert annað en óvissa.

Hvers virði er náttúra okkar Íslendinga? Þær upphæðir sem hér eru tilteknar stinga ekki í augu eða angra mig mjög; 48 milljónir á vegum ríkisvaldsins, gæti aukist í allt að 105,5 millj. kr. á ári. Þau sveitarfélög hér á Íslandi sem hafa náttúruperlur að geyma vilja og þurfa að fá skýrari lög, betri vinnu, aukna landvörslu og ekki síst einhvers konar lagabálka og aðstoð þegar kemur að utanvegaakstri. Aðalógnin við náttúruna í Hafnarfirði — besta sveitarfélagið í landinu, eins og ég vil gjarnan fá að segja hér í þessari pontu — er mótorhjólaakstur í upplandinu hjá okkur. Við höfum engin tæki og tól til að takast á við þann vanda. Þetta er sístækkandi og vaxandi vandi. Svo loksins þegar kemur lagabálkur sem gefur okkur tæki og tól og verkfæri til að takast á við það mikla verkefni — þá er það notað sem rökstuðningur fyrir því að fella þessi lög úr gildi. Hvað gengur hæstv. umhverfisráðherra til? Ég þarf að fara á plottnámskeið, ég er alveg búin að sjá það.

Ekki eru öll kurl komin til grafar. Mér finnst þetta vond stjórnsýsla. Ég kalla eftir sátt. Ég vona innilega að því verði sinnt, þessari miklu sátt sem alltaf er verið að tala um — en það á samt greinilega að vera sátt við einhverja allt aðra en þá sem sitja hér í þessum þingsal, þá sem sitja á Alþingi á þessu kjörtímabili. Mér þykir það miður. Mér finnst að það eigi að vera hefðbundin vinnubrögð að reyna fyrst og fremst að ná þverpólitískri sátt um svona stór og mikil mál. Mér finnst að það eigi að vera regla, mér finnst að hafa eigi þau vinnubrögð í heiðri. Þetta eru fín lög þó að eflaust sé hægt að segja að þau séu umdeild að einhverju leyti, náttúruvernd er oft umdeild, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Ég biðla til þingheims að skoða ákveðna lagabálka, fara yfir þá, en mér finnst það yfirgangur að fella þetta úr gildi, ákveðin frekja. Það eru mér mikil vonbrigði ef þetta eru vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason er einnig sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. Ég vil fá að spyrja hann nokkurra spurninga.

Mundir þú til dæmis segja að ef þitt sveitarfélag þyrfti að verja hátt í 500–800 þús. kr. í aukna náttúruvernd mundi það knésetja fjárhagsáætlanir ykkar fyrir árið 2014? Ég vil fá að spyrja. Eru þau ákvæði sem tilgreind eru í greinargerðinni, þegar kemur að skipulagsvaldi sveitarfélaga, mikill klafi og mikið deiluefni í þínu sveitarfélagi? Ég vil fá að spyrja hvort hv. þingmaður sé til dæmis á móti því að friðlýsa vatnsból eða sporna við utanvegaakstri. Ég vil fá að spyrja þar sem gests augað er oftar en ekki glöggt: Nú hefur hv. þingmaður setið hér á þingi síðan á mánudag og ég vil spyrja hann: Hvernig upplifir hann þessi vinnubrögð? Ég get sagt það hér að mér blöskrar. Ég vil fá að spyrja hann hvernig hann upplifi þessi vinnubrögð hér á Alþingi okkar Íslendinga.