143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:50]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að náttúruminjaskrá sé mikið framfaraskref þegar kemur að störfum, skipulagsvaldi og framkvæmdarvaldi sveitarfélaganna. Ég vil t.d. tiltaka að það er ekkert svo langt síðan að hraun var bara hraun, síðan hafa hugsjónir og hugmyndafræði um hraun náttúrlega breyst. Það þarf að skoða ákvæðið betur. Nú bý ég í sveitarfélagi sem er byggt á hrauni. Mikið ofboðslega þakka ég þeim fyrir sem tóku sig til og bjuggu til skrúðgarð í Hellisgerði á sínum tíma og ég fæ að njóta þess.

Í hrauninu okkar liggja mikil verðmæti. Þegar kemur að skipulagi nýrra lóða, athafnasvæða eða annars verður að taka tillit til náttúruminjaskrár svo hægt sé að skipuleggja í kringum skrána til hagsbóta og fyrir hagsmuni allra og ekki síst fyrir komandi kynslóðir. Rétt eins og við höfum verið með fornminjaskrá held ég að það sé mjög mikilvægt að lögfesta slíkt þannig að við förum betur eftir því hvað sé á náttúruminjaskrá og hvað ekki. Sveitarfélögin verða að vinna með það í samstarfi við þá miklu fagmenn sem eru í umhverfisráðuneyti (Forseti hringir.) og Umhverfisstofnun.