143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég held að við séum komin að mjög mikilvægum þætti í nýjum náttúruverndarlögum, þ.e. stöðu sveitarfélaganna, af því að hér hefur sjónum verið fyrst og fremst beint að því sem sveitarfélögin voru ekki sátt við en kannski síður rætt um það hvað var mikið gert í þessari lagasmíð í þágu aukins samráðs við sveitarfélögin, og kannski sérstaklega að því er varðar náttúruminjaskrána. Það var mín eindregna afstaða, hafandi verið stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og koma af sveitarstjórnarstiginu sjálf, að það yrði virt mjög eindregið í þessari vinnu að um tvær hliðar hins opinbera er að ræða, þar sem hvorugt stigið er æðra hinu í þeim skilningi. Þess vegna þyrfti að eiga sér stað samtal við sveitarfélögin við gerð náttúruminjaskrár til þess að samfélagsþættirnir væru inni frá byrjun, þ.e. það væri ekki einfaldlega náttúruverndaráætlun sem væri til og yrði til hér í þinginu og síðan væri lagt upp með friðlýsingar á grundvelli náttúruverndaráætlunar sem hefði ekki gengið í gegnum samráðsferli. Það eru lögin frá 1999. Með því að víkja þessum lögum til hliðar erum við aftur komin á þann stað að vera með náttúruverndaráætlun sem er stimpluð hér í þinginu og er síðan farið í vinnu við með sveitarfélögunum eftir að það er orðinn hlutur frá Alþingi.

Ég vil því sérstaklega fagna því að hv. þingmaður tekur þetta upp í ræðu sinni vegna þess að vinnan snýst þá ekki bara í raun og veru um vistgerðir og náttúrufar heldur ekki síður um að viðurkenna að það er við samfélag að eiga, samfélag sem hefur ákveðna afstöðu til þess hvaða hluti náttúrunnar hefur mest gildi og mest vægi fyrir íbúa þess (Forseti hringir.) rétt eins og hv. þingmaður kom inn á með sögur úr Hafnarfirði.