143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég var ekki á fundi nefndar í gær þar sem Seðlabankinn kom í heimsókn til að ræða um þessi mál en ég hef vissulega tekið eftir þeirri umræðu sem fór af stað í kjölfarið og ætla ekki að gerast þátttakandi í þeirri umræðu um það hvaða hugsanir eða meiningar lágu að baki þeim orðaskiptum sem þar áttu sér stað og ég var ekki vitni að.

Aðalatriðið er að nú er unnið í nefndum að þessum málum. Öll sú umræða sem fer fram um það sem sagt er í aðdraganda þess skiptir í sjálfu sér engu máli í samanburði við það að taka efnislega umræðu um tillögurnar þegar þær koma fram. Annað eru einhverjar getgátur sem skila engu og vangaveltur sem menn geta leikið sér með í fjölmiðlum eða í þingsal en hafa ekkert vægi á móti alvöruumræðu um vandann sem við er að etja og hvernig við tökum best á honum. Ég segi bara að ég held að það gildi hið sama fyrir Seðlabankann og þingnefndina og aðra þá sem koma að þessu máli að langbest er að umræðan fari fram á grundvelli raunverulegra tillagna.