143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

störf fjárlaganefndar.

[15:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kem hingað upp í dag er í beinu framhaldi af því sem ég vakti máls á hér í gær og varðar störf í fjárlaganefnd Alþingis.

Mig langar að eiga orðastað við fjármálaráðherra í beinu framhaldi af því sem hér var sagt áðan um hvenær þessar margumræddu tillögur koma fram. Við hljótum að þurfa að hafa þær þegar við tökum afstöðu til fjárlaganna.

Á morgun er aftur fundarfall í fjárlaganefnd. Fjáraukalagafrumvarpið er ekki komið fram. Síðasti dagurinn er í dag fyrir þá nefndadaga sem fram undan eru til þess að leggja mál fram, a.m.k. ef á að ræða þau þar og það er ekki á dagskrá. Tillögur til 2. umr. hafa ekki heldur litið dagsins ljós í nefndinni. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvenær við megum eiga von á því að fjáraukalagafrumvarpið komi inn til þingsins og inn til nefndarinnar. Það er nánast ómögulegt að ætla sér að vinna eitthvað af viti í fjárlögunum ef þetta liggur ekki fyrir.

Það má líka vekja athygli á því, og ég bið ráðherrann að staðfesta það hér, að væntanlega dregst 2. umr. fjárlaga sem á að fara fram þriðjudaginn 3. desember. Í næstu viku eru fundir miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Megum við eiga von á þessu inn þá? Telur hann ekki, eins og ég segi, að það þurfi að færa til 2. umr. fjárlaga? Og þá hversu mikið?